Almennir viðskiptaskilmálar

Hér á eftir fara almennir skilmálar um viðskipta- og samningskjör Tactica ehf., kt. 650400-2160, hér eftir nefnt TACTICA. TACTICA áskilur sér einhliða rétt til að breyta viðskiptaskilmálum þessum og munu breytingar verða tilkynntar með 30 daga fyrirvara til viðskiptavina TACTICA.

1. Skilgreiningar

Áskriftarþjónustur er samheiti fyrir þjónustur sem viðskiptavinur kaupir frá TACTICA og greiðir fyrirfram ákveðið mánaðargjald fyrir þessar þjónustur.

Hugbúnaður er samheiti yfir hvers konar setningar, skipanir og forrit í véllesanlegu eða prentuðu formi sem lúta að notkun gagnavinnslukerfa auk tilheyrandi skjölunar s.s. tæknilýsinga, handbóka, kennsluefnis og leiðbeininga.

Rétthafi er skráður kaupandi, og greiðandi af þjónustu eða hugbúnaði TACTICA

Samningur er samheiti fyrir hvers konar samning sem gerður er á milli TACTICA og viðskiptavinar.

Samningsaðili/ar eru TACTICA og viðskiptavinur/ir TACTICA

Samningsviðaukar eru viðaukar gerðir við einstaka samninga.

Sértækir viðskiptaskilmálar eru viðskiptaskilmálar um einstakar vörur eða þjónustur í boði hjá TACTICA.

Vara er samheiti fyrir hvers kyns hugbúnað eða aðra vörutegund sem TACTICA selur.

Verkkaupi er samheiti fyrir þann einstakling eða fyrirtæki sem kaupir þjónustu, ráðgjöf, eða búnað af TACTICA.

Viðskiptaskilmálar er samheiti fyrir almenna og sértæka viðskiptaskilmála TACTICA.

Þjónusta getur verið af hvaða tagi sem er og veitt af TACTICA til viðskiptavinar á grundvelli samnings á milli aðila.

Þjónustugjald er gjald fyrir þjónustu sem veitt er samkvæmt sérstökum þjónustusamningi.

2. Gildissvið

Undir viðskiptaskilmála þessa falla öll viðskipti og samningar TACTICA, þar á meðal tilboð við þriðja aðila um kaup á vöru og þjónustu, nema um annað sé samið með skriflegum hætti.

Sértækir viðskiptaskilmálar á tilteknum sviðum geta einnig átt við um viðskipti og samninga TACTICA við þriðja aðila um kaup á vöru og þjónustu. Viðskiptaskilmálarnir eru ófrávíkjanlegir og gilda um öll þau atriði sem fram í þeim koma, nema sérstaklega sé um þau samið með skriflegum hætti. Skulu allar breytingar á samningsskjölum vera skriflegar og undirritaðar, eða samþykktar í gegnum tölvupóst sem sannarlega er sendur af aðila með umboð til að samþykkja fyrir hönd viðskiptavinar.

Frávik frá viðskiptaskilmálunum teljast ekki samþykkt af hálfu TACTICA fyrr en undirritað samþykki TACTICA liggur fyrir, eða tölvupóstur frá framkvæmdastjóra TACTICA samþykkir frávikið.

Um kaup einstaklinga utan atvinnurekstrar á hvers kyns vöru og/eða þjónustu gilda lög um neytendakaup nr. 48/2003 og lög um þjónustukaup nr. 42/2000, ef ákvæði þeirra laga eru slíkum aðilum hagstæðari en þessir viðskiptaskilmálar kveða á um.

Kaup á hvers kyns vöru eru almennt háð lögum um lausafjárkaup nr.50/2000, þar sem ákvæðum þessa skilmála, samningi eða viðskiptavenju milli aðila sleppir.

3. Samningur

Samningur telst kominn á þegar samningur, samningsviðauki eða eftir atvikum tilboð hefur verið undirritað(ur), eða samþykkt(ur) skriflega af báðum aðilum með öðrum hætti, til dæmis með samþykki á tilboði í tölvupósti.

3.1 Gildistími tilboðs

TACTICA ákveður gildistíma tilboðs og telst ekki bundið af tilboði hafi það ekki verið samþykkt af viðskiptavini með formlegum hætti (þar á meðal með samþykki í tölvupósti) innan gildistíma þess.

3.2 Gildistími samninga

Ef ekki er kveðið á um gildistíma samnings í samningi á milli aðila, skal samningur gilda í 12 mánuði og vera óuppsegjanlegur á þeim tíma. Að þeim tíma liðnum skal samningur framlengjast um ár í senn, en vera uppsegjanlegur hvenær sem er á þeim tíma í samræmi við ákvæði 3.3 í þessum skilmálum.

3.3 Uppsagnarfrestur

Ef ekki er kveðið á um uppsagnarfrest samninga í samningi á milli aðila, skal uppsagnarfrestur samnings vera 3 mánuðir. Uppsögn tekur gildi um mánaðarmót eftir að hún berst og byrjar þá uppsagnarfrestur að líða. Uppsögn skal vera skrifleg á bréfi eða í tölvupósti og afhent með sannanlegum hætti.

Uppsagnarfrestur áskriftarþjónustu (Integrator, hýsingar, Microsoft 365, Google Workspace og fleira) er einn mánuður frá næstu mánaðamótum eftir að uppsögn berst. Dæmi: Uppsögn berst 6 mars. Þjónustum er lokað og gögnum eytt ekki seinna en um mánaðarmótin apríl/maí.

3.4 Misræmi í skilmálum

Ákvæði sértækra viðskiptaskilmála, viðauka, samninga og samþykktra tilboða skulu ganga framar almennum viðskiptaskilmálum þessum.

4. Greiðsluskilmálar

4.1 Gjaldskrá

TACTICA birtir opinberlega gjaldskrá fyrir þjónustu á hverjum tíma. Rétthafi getur nálgast gjaldskrána á skrifstofu TACTICA eða óskað eftir að fá hana senda í tölvupósti. TACTICA getur breytt gjaldskrá fyrir áskrift að þjónustum og/eða öðrum áskriftarskilmálum með eins mánaða fyrirvara. Slíkt er tilkynnt á heimasíðu TACTICA.

4.2 Greiðslur og ábyrgð

Skráður rétthafi ber ábyrgð á greiðslum til TACTICA vegna notkunar sem á sér stað. Öllum fyrirspurnum er varðar reikningamál er svarað í síma 546 6000 en slíkar fyrirspurnir má einnig senda á [email protected]. Vörur og/eða þjónustu skal staðgreiða nema um annað hafi verið samið sérstaklega. Annar greiðslumáti en samkvæmt greiðsluseðlum eða reikningi telst ófullnægjandi. Hafi verið samið um annan greiðslumáta en staðgreiðslu eða greiðslu með greiðslukorti skal TACTICA senda út reikning fyrir selda vöru og/eða þjónustu. Reikningar frá TACTICA skulu vera sundurliðaðir og eftir atvikum studdir fylgiskjölum til þess að unnt sé að sannreyna þá.

4.3 Gjalddagi

Gjalddagi þjónustu er fyrsti dagur hvers mánaðar.

4.4 Eindagi

Eindagi reiknings er allt að 20 dögum eftir gjalddaga. Sé reikningur greiddur eftir eindaga, ber viðskiptavin að greiða dráttarvexti frá gjalddaga til greiðsludags auk kostnaðar við innheimtu. Hafi greiðsla ekki borist 31 degi eftir eindaga áskilur TACTICA sér rétt til að loka fyrir alla þjónustu.

Kerfi TACTICA framkvæmir sjálfkrafa lokanir á þjónustu(m) ef tveir reikningar eða fleiri eru fallnir á eindaga.

4.5 Athugasemdir

Athugasemdir skulu gerðar við útgefna reikninga án tafar og eigi síðar en á eindaga, ella telst reikningur samþykktur.

4.6 Vanskil og vanefndir

Hafi vanskil viðskiptavinar á stökum reikning varað lengur en 30 daga frá eindaga áskilur TACTICA sér rétt til að tilkynna nafn viðskiptavinar á vanskilaskrá Creditinfo Ísland (Lánstraust).

TACTICA áskilur sér rétt til að loka fyrir og segja upp áskriftarþjónustu(m) sem seld(ar) hefur/hafa verið til viðskiptavinar og eyða öllum gögnum er tengjast áskriftarþjónustu(m) viðskiptavinar sé viðskiptavinur með ógreiddan reikning sem kominn er meira en 30 daga fram yfir eindaga.

Samningsaðili getur rift samningi án fyrirvara ef um er að ræða verulega vanefnd af hálfu hins aðilans í samræmi við almennar reglur. TACTICA getur til viðbótar venjulegum vanefndaheimildum m.a. rift samningi vegna vanefnda ef:

  • Viðskiptavinur greiðir ekki reikninga vegna umsaminnar og veittrar þjónustu innan 30 daga eftir eindaga.

  • Viðskiptavinur uppfyllir ekki samningsbundnar skyldur sínar við TACTICA innan 30 daga frá dagsetningu skriflegrar tilkynningar frá TACTICA um efnisatriði málsins.

  • Viðskiptavinur notar búnað með öðrum hætti en notkunarskilmálar eða aðrar útgefnar leiðbeiningar um meðferð hans kveða á um.

  • Viðskiptavinur notar búnað umfram það, sem TACTICA skilgreinir sem hámarksnotkun á tilgreindu tímabili.

  • Viðskiptavini er veitt heimild til greiðslustöðvunar, hann fær heimild til að leita nauðasamninga eða verður gjaldþrota.

  • Aðrir en starfsmenn TACTICA hafa án undanfarandi samþykkis TACTICA veitt hinum tiltekna búnaði þjónustu.

  • Verði samningi rift af hálfu TACTICA ber viðskiptavini að greiða áfallin gjöld samkvæmt samningum auk alls kostnaðar.

4.7 Kreditkorta greiðslur 

Athugið að greiðslukostnaður getur bæst við ef ekki er greitt með kreditkorti. Greiðslukostnaðurinn getur tekið breytingum ef sent er í heimabanka. Engir greiðsluseðlar eru sendir út á pappír.

5. Aukaverk

Aukaverk teljast öll verk sem ekki falla innan samnings. Slík verk eru háð sérstöku samkomulagi á milli aðila og eru reikningsfærð sérstaklega samkvæmt tímagjaldi. Fyrir slíka vinnu skal greitt samkvæmt gjaldskrá TACTICA eins og hún er á hverjum tíma, nema um annað hafi verið samið í samningi eða í tölvupósti. Ef nauðsynlegt er skal TACTICA vera heimilt að grípa til aðgerða til varnar tjóni fyrir viðskiptavin án samþykkis hans og skal farið með slíkar aðgerðir sem aukaverk. Óski viðskiptavinur eftir úttekt á þeim kerfum sem TACTICA hefur í rekstri, verkefnum sem TACTICA vinnur eða þjónustu sem TACTICA veitir skal greitt fyrir slíka vinnu samkvæmt gildandi gjaldskrá hverju sinni.

Lágmarkseiningar aukaverka:

Fyrir aðstoð í gegnum síma er lágmarkseining 30 mínútur, eftir það er innheimt fyrir hverjar byrjaðar 30 mínútur nema samningur segi til um annað.

Ef starfsmaður TACTICA er fenginn á stað viðskiptavinar er lágmarks eining 2 klst, innan höfuðborgarsvæðis, eftir það er innheimt fyrir hverjar byrjaðar 30 mínútur nema samningur segi til um annað.

6. Vinnutímar

Vinnutími TACTICA er á virkum dögum á milli 09:00 og 17:00. Ekki er unnið á stórhátíðardögum nema sé sérstaklega óskað eftir því og í neyðartilvikum.

7. Áskriftarþjónustur

Áskriftarþjónustur (t.d. Integrator tengingar, hýsingar, Google Workspace, Microsoft 365, og fleira) mynda stofn til innheimtu þar til óskað hefur verið að loka á þjónusturnar. Uppsagnarfrestur á áskriftarþjónustum er einn mánuður sem tekur gildi við næstu mánaðamót eftir að uppsögn berst TACTICA skriflega á [email protected].

Greitt skal vera fyrir áskriftarþjónustur fyrir líðandi mánuð með eindaga 20. dag þess mánaðar.

ATH! Öllum gögnum er eytt við lokun á áskriftarþjónustum nema ef þau eru færð annað við lok þjónustu hjá TACTICA. Greitt er fyrir þjónustur í samræmi við uppsagnarákvæði 3.3 hér að ofan óháð því hvort þjónustur eru færðar áður en uppsagnarfrestur er liðinn.

Vanskil á greiðslum fyrir áskriftarþjónustu leiðir til lokunar og eyðingar á gögnum í samræmi við ákvæðið “Vanskil” undir kaflanum Greiðsluskilmálar í skilmálum þessum.

8. Aðgangs- og Lykilorð

Öll ábyrgð á því að passa upp á aðgangsorð og lykilorð liggur hjá viðskiptavin. Ef aðgangs- eða lykilorð glatast og viðskiptavinur óskar eftir aðstoð TACTICA við að ná aðgangi að vefsíðum, tölvubúnaði eða öðrum búnaði, skal fara með þá vinnu sem aukaverk sbr. 5.gr.í skilmálum þessum.

Viðskiptavinur ber alla ábyrgð á að veita TACTICA upplýsingar um hvaða aðilar og tölvupóstföng mega óska eftir breytingum eða lokunum á þjónustum ásamt því að halda TACTICA upplýstum þegar breytingar verða á þeim starfsmönnum sem eru í samskiptum við TACTICA fyrir hönd lögaðila.

Sá er stofnar til viðskipta við TACTICA telst vera aðili með fullt vald til að óska eftir breytingum eða lokunum á þjónustuleiðum viðskiptavinar hjá TACTICA séu ekki aðrir tilnefndir með skriflegum hætti í gegnum tölvupóst.

Óskir um lokun á aðgangi eiganda eða meðeiganda í kjölfar breytinga á eignarhaldi lögaðila ber að staðfesta með afhendingu á fyrirtækjavottorði eða öðru viðurkenndu skjali til að sýna fram á breytt eignarhald lögaðilans.

Eigendur eða meðeigendur sem óska eftir að loka á reikninga annarra meðeigenda ber að upplýsa TACTICA að um lokun á aðgangi eiganda/meðeiganda sé að ræða og senda með beiðninni afrit af gildu fyrirtækjavottorði eða öðru skjali sem færir sönnur á eignarhald á þeim tíma. Annars ber sá er óskar eftir lokuninni fulla ábyrgð á beiðninni.

Lögaðilinn einn ber ábyrgð á því að senda fyrirtækjavottorð með þegar óskað er eftir lokun á þjónustum fyrrum eigenda lögaðila þar sem TACTICA heldur ekki skrá um eigendur fyrirtækja hverju sinni.

Lögaðili skal ávallt halda TACTICA óábyrgum fyrir öllum afleiðingum sem lokanir eða breytingar á þjónustu fyrir starfsfólk eða meðeigendur getur haft í för með sér, eftir að beiðni um lokanir eða breytingar hefur borist frá réttmætum aðilum og í samræmi við skilmála þessa.

Óskir um lokun eða breytingu á aðgangi lykilstarfsmanns eða tæknilegs notanda hjá lögaðila skal berast frá næsta yfirmanni starfsmannsins eða annars sem hefur stjórnunarvald gagnvart starfsmanninum.

9. Upplýsingaöryggi og persónuvernd

9.1 Staðlar upplýsingaöryggis

Að því marki sem mælt er fyrir um að í samningi aðila getur TACTICA unnið eftir skjalfestum reglum verkkaupa er varða upplýsingaöryggi, séu þær kröfur strangari en staðallinn sem TACTICA vinnur eftir hverju sinni. Það sama skal eiga við um kröfur um upplýsingaöryggi sem lög eða þar til bær stjórnvöld kunna að gera til starfsemi verkkaupa og verktaka á hans vegum.

9.2 Gagnaver

TACTICA hýsir öll sín kerfi í ISO vottuðum gagnaverum bæði hérlendis og erlendis.

9.3 Öryggisreglur

Verkkaupi skuldbindur sig til að virða þær öryggisreglur TACTICA sem Verkkaupi er upplýstur um.

9.4 Ábyrgðaraðili persónuupplýsinga

Verkkaupi telst ábyrgðaraðili í skilningi laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, með síðari áorðnum breytingum, að því er varðar hvers konar efni sem afritað er í samræmi við samning þennan og áðurnefnd lög ná yfir, enda leiði ekki annan skilning af lögunum. Sömuleiðis telst TACTICA vera vinnsluaðili skv. sömu lögum vegna vinnslu á efni Verkkaupa skv. samningnum.

9.5 Öryggisþættir

TACTICA skal veita Verkkaupa rétt til að sannreyna öryggisþætti eins og gagna- og rekstraröryggi með úttektum á aðgengi, hýsingu og meðhöndlun gagna verkkaupa sem TACTICA kann að vera falið að sjá um samkvæmt samningi aðila. Slík úttekt skal þó ekki gerð oftar en einu sinni á ári og ber verkkaupa að tilkynna TACTICA það með hæfilegum fyrirvara og skal slíkt gert í samráði við TACTICA.

9.6 Persónulegar upplýsingar

Í þeim tilfellum þar sem persónulegar upplýsingar eru skráðar t.d. vegna starfsumsókna, pantana eða beiðna um frekari upplýsingagjöf, þar sem viðskiptavinur þarf að skrá nafn sitt, heimilisfang, tölvupóstfang eða aðrar persónutengdar upplýsingar, skuldbindur TACTICA sig til þess að fara að lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og varðveita framangreindar upplýsingar á öruggan og tryggan hátt og ekki miðla á nokkurn hátt upplýsingum sem skráðar hafa verið í ofangreindum tilgangi til þriðja aðila án samþykkis viðkomandi aðila eða í kjölfar dómsúrskurðar. TACTICA skal gæta fyllsta trúnaðar varðandi gögn og málefni sem því verður kunnugt um viðskiptavin og skjólstæðinga hans. Samningur á milli aðila er trúnaðarmál og skal því aðeins dreift til þeirra sem hafa með framkvæmd hans að gera og aðeins að því marki sem nauðsynlegt er. Starfsmenn TACTICA undirrita heit um trúnaðarskyldu um allt það er varðar hagi viðskiptavina TACTICA sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum viðskiptavinar eða eðli máls. Helst trúnaðarskylda eftir að samningi er lokið.

9.7 Trúnaðarskylda

Viðskiptavinur er bundinn trúnaðarskyldu um málefni TACTICA sem hann fær vitneskju um vegna framkvæmdar samnings og helst trúnaðarskylda eftir að samningi er lokið. TACTICA kann að vera skylt samkvæmt lögum eða dómsúrskurði að verða við kröfu yfirvalda um afhendingu gagna viðskiptavina í hýsingu, afhendingu upplýsinga sem varða viðskiptasamband við viðskiptavin eða aðgang að vélbúnaði í hýsingu. Komi upp slíkt tilvik skal TACTICA án tafar upplýsa viðskiptavin um málið. Kostnaður sem fellur á TACTICA vegna aðgerða yfirvalda gagnvart viðskiptavinum telst vera aukaverk og greiðir viðskiptavinur fyrir slíka vinnu samkvæmt gildandi gjaldskrá hverju sinni og í samræmi við 5. gr. í skilmálum þessu.

10. Ábyrgðartakmarkanir

Almennar ábyrgðartakmarkanir

  • Bótaskylda viðskiptavinar innan samninga sem hafa verið gerðir við TACTICA takmarkast við beint tjón sem gagnaðili hefur orðið fyrir og gera má ráð fyrir að sé afleiðing af vanefnd viðskiptasamnings.

  • Bótaábyrgð innan samninga nær ekki til óbeins tjóns gagnaðila, þ.m.t. rekstrartaps, eða tjóns sökum þess að ekki hefur tekist að uppfylla samninga við þriðja aðila að hluta til eða að öllu leyti.

  • TACTICA ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til breytinga á veituspennu, rafmagnstruflana eða annarra utanaðkomandi áhrifa.

  • TACTICA ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til sambandsleysis, rofs á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna að verða.

  • TACTICA ber ekki ábyrgð á tjóni sem viðskiptavinur eða þriðji aðili á vegum viðskiptavinar verður valdur að án meðábyrgðar TACTICA.

  • Ef samningsaðili getur ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samningnum vegna neyðarréttarlegra, óviðráðanlegra atvika falla skuldbindingar hans, þ.m.t. möguleg bótaábyrgð, niður á meðan slíkt ástand varir.

  • TACTICA ber ekki ábyrgð á tilvikum þar sem starfsmaður lögaðila villir á sér heimildum og/eða aðgangsheimildum til að fá aðgang að kerfum eða þjónustu, ef í ljósi viðskiptasögu og samskipta megi áætla að óskir þessa starfsmanns séu á engan hátt saknæmar.

  • Þegar viðskiptavinur færir þjónustur sínar til TACTICA frá öðrum þjónustuaðila ber TACTICA enga ábyrgð á því að viðskiptum við fráfarandi þjónustuaðila sé sagt upp, slíkt er alfarið í verkahring viðskiptavinar. TACTICA ber einungis ábyrgð á því að selda þjónustan sé innheimt frá upphafsdegi viðskipta.

Eftirfarandi takmarkanir á ábyrgð TACTICA gilda vegna notkunar á Integrator, SaaS lausn verksala, hér eftir nefnd varan.

  • Notkun vörunnar í starfsemi viðskiptavinar sem kaupir uppsetningu vörunnar af TACTICA er alfarið á ábyrgð viðskiptavinar.

  • Ábyrgð TACTICA á vörunni á ekki við í þeim tilvikum þegar:

    • Villu í vörunni er að rekja til uppsetningar viðskiptavinar eða þriðja aðila á vörunni, öðrum WordPress viðbótum, öðrum WooCommerce viðbótum, sniðmáti, vélbúnaði, stýrikerfum, skráarkerfum, gagnagrunnum, öðrum tölvukerfum eða hugbúnaði frá þriðja aðila.

    • Villu í vörunni er að rekja til villu eða galla í hugbúnaði þriðja aðila og/eða vélbúnaði frá þriðja aðila.

    • Villu í vörunni er að rekja til þess að vörunni hafi, án heimildar TACTICA, verið breytt eða aðlagað (eða reynt að breyta eða aðlaga) af verkkaupa eða þriðja aðila.

    • Villu í vörunni er að rekja til þess að kerfið er notað á annan hátt en gert er ráð fyrir og TACTICA hefur sannanlega leiðbeint viðskiptavin um rétta notkun.

    • Villu í vörunni er að rekja til force majure, þ.e. til bilana í rafmagni, slysa, stríðsátaka, náttúruhamfara, deilna á vinnumarkaði, fyrirmæla stjórnvalda eða annarra óvæntra og ófyrirséðra atvika, sem TACTICA er ekki unnt að fyrirbyggja.

    • Finnist villa í vörunni og fyrrgreindar takmarkanir á ábyrgð vörunnar eru ekki fyrir hendi, skuldbindur TACTICA sig til að lagfæra villur í vörunni á sinn kostnað, á meðan þjónustusamningur er í gildi. Komi hins vegar í ljós við greiningu vandans hjá TACTICA að villa í tölvukerfi viðskiptavinar er ekki að rekja til kerfisins, heldur til hugbúnaðar eða vélbúnaðar þriðja aðila eða annarra utanaðkomandi þátta, þá skal kostnaður TACTICA við greiningu vandans og hugsanlegra lagfæringa, vera greiddur af viðskiptavin samkvæmt framlögðum reikningi þar sem fram koma unnir tímar og hvað var gert.

11. Eignaréttur hugbúnaðar

  • Integrator SaaS lausn verksala er hugbúnaðarlausn sem þróuð er af TACTICA og er að öllu leyti í eigu TACTICA.

  • Notkun á Integrator í samræmi við samninga hefur ekki í för með sér neins konar yfirfærslu á höfundarétti frá einum samningsaðila til annars, nema það sé kveðið á um það sérstaklega í samning milli TACTICA og viðskiptavinar.

  • Ef viðskiptavinur gerir sérstakt samkomulag í tengslum við framkvæmd samnings um endurbætur eða frekari þróun tæknilegra lausna eða annars, þar sem TACTICA á hugbúnað eða hugverk og réttindi tengd því, skal hin endurbætta eða þróaða lausn vera hluti af réttindum TACTICA, nema um annað sé samið.

  • TACTICA selur viðskiptavin aðgang að Integrator SaaS hugbúnaðarlausn til að tengja saman mismunandi kerfi viðskiptavinar og færa upplýsingar frá einu kerfi yfir í annað.

  • TACTICA er eini eigandi Integrator SaaS lausnarinnar og því frjálst að selja aðgang að henni, fólki og fyrirtækjum, án leyfis annara notenda Integrator hverju sinni. Aðrir notendur Integrator hafa engar leiðir til að öðlast vitneskju um upplýsingar annara notenda Integrator þar sem engar tengingar liggja á milli mismunandi vara viðskiptavina verkkaupa.

12. Trúnaður

Samningsaðilar skulu halda fullum trúnaði um málefni sem þeir fá upplýsingar um frá gagnaðila og ætla má vegna eðlis og/eða aðstæðna, að fara skuli með sem trúnaðarmál, og skal sá samningsaðili á engan hátt færa sér slíkar upplýsingar í nyt nema í samræmi við ákvæði samningsaðila á gildistíma hans, sbr. t.a.m. ákvæði laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, með áorðnum breytingum. Upplýsingar, sem eru eða ætla má að séu á allra vitorði eða öllum aðgengilegar, teljast ekki trúnaðarupplýsingar, nema slíkar aðstæður stafi af broti á þessu ákvæði.

Trúnaðarskylda starfsmanna samningsaðila skal haldast ótímabundið eftir að þeir hafa lokið störfum í þágu samningsaðila og eftir uppsögn eða riftun samnings aðila.

13. Varðveisla gagna og aðrar skyldur við lok samnings

TACTICA varðveitir ekki gögn viðskiptavinar eftir að gildistíma samninga er lokið eða honum hefur verið sagt upp af öðrum orsökum og þjónustum hefur verið lokað og eytt í samræmi við skilmála þessa. Hvíli skylda á viðskiptavin að varðveita gögn á grundvelli ákvæða laga eða samninga, eins og t.d. varðveisla bókhaldsgagna á grundvelli laga um bókhald, sem TACTICA hefur haft til varðveislu skuldbindur viðskiptavinur sig til þess að varðveita sjálfur eintök af þeim gögnum, og óska eftir að fá þau afhent frá TACTICA.

TACTICA ber ekki ábyrgð á að varðveita umrædd gögn fyrir hönd viðskiptavinar eftir samningslok.

Viðskiptavinur ber ábyrgð á því að óska eftir að fá öll gögn afhent við samningslok.

Við lok samnings skulu viðskiptavini afhent leyfi og forrit sem hann sannarlega átti við upphaf samningsins og önnur leyfi og forrit sem hann hefur keypt á þjónustutíma, nema um annað hafi verið samið.

Öll vinna sem TACTICA sinnir vegna samningsloka er unnin sem aukaverk og skal fara með það í samræmi við 5.gr í skilmálum þessum.

14. Riftun

Hvorum aðila um sig er heimilt að rifta samningi þessum ef um verulegar vanefndir er að ræða.

Riftunin skal vera skrifleg, rökstudd og send gagnaðila með sannanlegum hætti. Riftun skal

miðast við næstu mánaðamót eftir að riftunaryfirlýsing hefur verið send. Að öðru leyti gilda

almennar reglur kröfuréttarins.

15. Varnarþing

Ef upp koma mál vegna ágreinings um framkvæmd samnings þessa sem ekki er mögulegt að

leysa með samkomulagi beggja skal reka málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Skilmálar Verksala eru birtir á vefsíðu hans, tactica.is.

Ef misræmi er á milli samnings og viðauka, gilda ákvæði samnings þessa.